Eimur sótti á dögunum mannamótið Synergies for Greener European Horizons í Osló undir lok janúar. Hún var haldin undir merkjum uppbyggingarsjóðs EES með áherslu á samstarf milli Íslands, Noregs og Rúmeníu.
Markmiðið var að koma saman fólki, fyrirtækjum, stofnunum og klösum sem starfa innan landanna þriggja með fyrirhugað samstarf í huga í rannsókna- og þróunarverkefnum á ýmsum sviðum, allt frá orkumálum yfir í heilbrigðistækni.
Eimur kynnti starfsemi sína og áherslur og styrkti tengsl sín við norska og rúmenska aðila, en markmiðið er að byggja á þeim tengslum til að þróa ný verkefni sem falla að áherslusviðum Eims, einkum í sjálfbærri orkunýtingu og nýsköpun. Viðburðurinn skapaði tækifæri til að mynda ný tengslanet og kanna möguleika á samstarfi sem stuðlar að orkuskiptum og sjálfbærri þróun.
Viðburðurinn var haldinn í samstarfi Rannís, hinu norska Innovation Performance, og klasasamtaka Rúmeníu, Clustero.