Mótun áherslna til framtíðar - Stefnumótunardagur Eims

Í gær, miðvikudaginn 12. mars, kom stjórn Eims, verkefnastjórn og starfsfólk saman á stefnumótunarfundi á Múlabergi, Akureyri.
Markmið fundarins var að móta áherslur og markmið félagsins út starfsárið 2026, rýna í núverandi og fyrirhuguð verkefni og styrkja sameiginlega framtíðarsýn.
Fundurinn var skipulagður í kringum þrjú meginstef sem einkenna starfsemi Eims og skarast oft á í verkefnum: orkuskipti, lífmassa og glatvarma. Kynningar, hópavinna og umræður fóru fram um hvert þessara sviða, auk þess sem SVÓT-greining Eims var kynnt og rædd í samhengi við áframhaldandi þróun félagsins. Þá var einn liður fundarins tileinkaður aðferðafræði við mótun verkefna, þar sem fjallað var um áherslur, tímaramma, fjármögnun og hlutverk Eims í þróun verkefna og ráðgjöf þeim tengdum . Einnig var tekin gagnleg umræða um árangur og árangursmælikvarða, með það að markmiði að skerpa á mælanlegum viðmiðum og tryggja að starfsemin nái settum markmiðum.
Það er alltaf dýrmætt að koma saman, skerpa sameiginlega sýn og eiga uppbyggilegt samtal um framtíðaráherslur og stefnu.
Við þökkum stjórn og verkefnastjórn fyrir virkilega gagnlegan vinnudag !


Deila frétt
