17. mars 2025
Glötuð gufa? – nýting glatvarma frá stóriðju til gufuframleiðslu
Eimur hlýtur styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar
Eimur og PCC BakkiSilicon hlutu nýverið styrk úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar
til að kanna hagkvæmni þess að nýta háhita frá iðnaðaferlum PCC BakkiSilicon til gufuframleiðslu. Markmið verkefnisins er að kanna hvernig draga má úr orkukostnaði við gufuframleiðslu fyrir iðnað staðsettan innan Græns Iðngarðs á Bakka og á sama tíma bæta orkunýtingu svæðisins.
Rannsóknin mun sýna fram á hvernig bætt nýting auðlinda getur mögulega leitt til orkusparnaðar, lægri rekstrarkostnaðar og á sama tíma sjálfbærari iðnaðaruppbyggingu. Verkefnið hefur bæði beinan fjárhagslegan ávinning og samfélagslega mikilvægi, þar sem það stuðlar að sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og dregur úr umhverfisáhrifum. Verkefni af þessu tagi er verulega gagnlegt til að ýta áfram umræðu um bætta auðlindanýtingu á landsvísu og getur orðið fyrirmynd af slíkum verkefnum framtíðarinnar.
Gögn sem munu liggja fyrir að rannsókn lokinni eru:
- Varmagreining frá PCC: Mælingar á hitastigi og magni varmaorku sem losnar við framleiðsluferla PCC frá háhitastrompunum.
- Hagkvæmniútreikningar: Samanburður á kostnaði við gufuframleiðslu með háhita við hefðbundna gufuframleiðslu með raforku (og dreifigjaldi raforku innan utan þéttbýlis).
Árið 2024 var unnin greining á nýtingu glatvarma frá kælikerfi PCC, sem reyndist mjög jákvæð. Nú verður skoðað hvernig háhiti úr strompunum frá framleiðsluferlum PCC getur nýst til gufuframleiðslu.
Verkefnið er samstarfsverkefni PCC BakkiSilicon og Eims. Þá verður verkfræðistofa fengin til að greina varmaflæði og til að meta hagkvæmni og nýtingu glatvarma. Ef verkefnið reynist árangursríkt, getur það orðið fyrirmynd fyrir sjálfbæra iðnaðaruppbyggingu þar sem tækifæri eru í nýtingu háhita.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Karen Mist Kristjánsdóttir á netfangið karen@eimur.is
Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði styrkjum til 46 rannsóknarverkefna í ár, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á vefsíðu Landsvirkjunar.
Deila frétt

RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu.