2. apríl 2025

Frábær þátttaka á upphafsfundi ICEWATER

Um 80 manns tóku þátt í fyrsta fundi í ICEWATER verkefninu, sem haldinn var dagana 24. og 25. mars 2025 í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Fundurinn markaði upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis, sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.

Markmið fundarins var fyrst og fremst að hrista þennan stóra hóp saman og gefa þeim sem standa að verkefninu tækifæri til að hittast og ræða verkefnið. Farið var yfir ýmis hagnýt mál sem tengjast rekstri Evrópuverkefna og línurnar lagðar fyrir þau verkefni sem fram undan eru.


Um verkefnið

ICEWATER verkefnið hlaut nýverið um 3,5 milljarð í styrk frá LIFE áætlun Evrópusambandsins og er þetta einn stærsti styrkur sem Ísland hefur fengið úr samkeppnissjóðum ESB. Verkefnið er leitt af Umhverfis- og orkustofnun og er það unnið í nánu samstarfi við fjölbreyttan hóp íslenskra samstarfsaðila á borð við fagstofnanir ríkisins, sveitarfélög, opinber fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki.


Verkefninu er ætlað að: 

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi 
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum 
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni 
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns 



Þátttakendur


Þátttakendur í ICEWATER verkefninu eru:

Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfis- og orkustofnun, Umhverfis,- orku og loftslagsráðuneyti, Veðurstofa Íslands, Veitur og þrír óbeinur þátttakendur: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.


Með LIFE ICEWATER gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum. 


Eimur mun vinna verkefni um verðmætasköpun úr lífrænum efnum sem finnast í fráveituvatni með Orkuveitu Húsavíkur og Gefn, með áherslu á framleiðslu á orkugjöfum úr þeim lífmassa.


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 10. apríl 2025
RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu. 
9. apríl 2025
Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 21. mars 2025
Eimur og Vestfjarðastofa bjóða til vefþings, fimmtudaginn 3. apríl næstkomandi, þar sem fjallað verður um áskoranir og tækifæri við orkuskipti smábátaflotans. Hvað þarf til að orkuskipti smábáta verði að veruleika? Hvaða endurnýjanlegu orkugjafar verða í boði til notkunar á sjó? Hvaða reglur um haffærni rafmagnsbáta munu gilda? Sérfræðingar, hagsmunaaðilar og sjómenn munu ræða þessi og önnur mikilvæg mál eins og kostnað, hreinorkuívilnanir og áhrif breytinganna á byggðaþróun og samfélag. Þátttaka er öllum opin en til að fá fundarboð þarf að skrá sig. Smelltu hér til að skrá þig Dagskrá *Birt með fyrirvara um breytingar Hluti I: Tæknilausnir í farvatninu 13:00 – „Stefna stjórnvalda og orkuskipti smábáta“, Jóhann Páll Jóhannsson, Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra. 13:20 – „Rafmagns og tengiltvinnlausnir í smábátum”, Kolbeinn Óttarsson Proppé, stofnandi Grænafls. 13:40 – „Nýsmíði rafmagnsbáta,tækifæri og áskoranir“, Jónas Ingi Pétursson, Þrym. 14:00 – „Takmarkandi þættir þegar kemur að orkuskiptum smábáta”, Tinna Rún Snorradóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláma. Kaffihlé – 10 mín Hluti II: Samfélag og orkuskipti smábáta 14.30 – „Öryggiskröfur rafbáta og leyfismál þeirra“, Ingólfur Örn Þorbjörnsson, sérfræðingur á Samgöngustofu. 14.50 – „Áskoranir fyrir hafnir vegna orkuskipta smábáta“, Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisstjóri Faxaflóahafna. 15:10 – „Orkuskipti smábáta út frá sjónarhóli smábátasjómanna“, Einar Helgason, formaður félags strandveiðisjómann á sunnanverðum Vestfjörðum. 15:30 – „Líklegar/hugsanlegar breytingar á Byggðamynstri samfara orkuskiptum í sjávarútvegi“, Dr. Catherine Chambers, rannsóknarstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. 15:50 - 16:10 - Pallborðsumræður fyrirlesara undir stjórn Ottós Elíassonar, framkvæmdastjóra hjá Eimi.