Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði nýverið styrkjum til 46 rannsóknarverkefna, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Eimur hlaut þar styrk fyrir verkefnið Sjálfbær nýting hauggass í Stekkjarvík, sem Ragnhildur Friðriksdóttir hjá Eimi leiðir og snýr að því að finna hagkvæma lausn á nýtingu hauggassins sem safnað er í Stekkjarvík. Niðurstöður verkefnisins munu veita hagsmunaaðilum mikilvægar upplýsingar um möguleika til nýtingar á þessari ónýttu auðlind og varpa ljósi á ávinning og tækifæri fyrir nærsamfélög og umhverfið.
Hauggas frá urðunarstöðum - Hvað er það og hvernig getum við búið til verðmæti úr gasinu sem nýtist nærsamfélaginu?
Urðunarstaðurinn í Stekkjarvík, norðan við Blönduós, er einn af stærstu urðunarstöðum á landinu. Frá 2011 hefur Stekkjarvík tekið við rúmlega 250 þúsund tonnum af úrgangi frá sveitarfélögum á Norðurlandi, mest blönduðum úrgangi, auk sláturúrgangs. Í rotnandi úrganginum myndast metangas, sem frá árinu 2018 hefur verið safnað saman með sérstöku lagnakerfi og því dælt upp. Um 30-40 rúmmetrar af hauggasi safnast saman á klst í núverandi gassöfnunarkerfi, þar af er 32% metangas. Metanið, sem er allt að 25 sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur, er leitt í sérstaka brennslustöð í Stekkjavík þar sem það er brennt til þess að lágmarka útblástur frá urðunarstaðnum.
Talsverð vinna hefur verið lögð í umrætt gassöfnunarkerfi í Stekkjarvík en hingað til hefur gasinu verið fargað með brennslu í stað þess að nýta það. Alls voru því um 88 tonn af metangasi brennd árið 2021 og 72 tonn árið 2022. Nýlega var innleitt bann við urðun á lífrænum úrgangi, og er það gert í því skyni að lágmarka umhverfisáhrif frá urðunarstöðum, enda myndast mikið magn gróðurhúsalofttegunda við niðurbrot lífræns úrgangs. Bannið breytir þó ekki þeirri staðreynd að lífrænn úrgangur sem kominn er ofan í jörðu gefur áfram frá sér hauggas. Hauggas kemur því til með að myndast í urðunarhólfinu í Stekkjarvík næstu ár og áratugi, jafnvel þó svo að urðun lífræns úrgangs yrði hætt í dag. Því er ljóst að hér er um að ræða vannýtta auðlind sem mikilvægt er að finna farveg til nýtingar. Dæmi um nýtingarmöguleika gassins er framleiðsla á raforku og varma, sem nýst gæti nærumhverfinu og nærliggjandi byggðarkjörnum. Í því samhengi má m.a. nefna að heitavatnslögn Rarik til Skagastrandar liggur steinsnar frá athafnarsvæðinu og gæti varmi frá bruna metans vel nýst til kyndingar þess vatns sem þar rennur. Slíkt gæti haft jákvæð áhrif á framboð af heitu vatni bæði á Skagaströnd og Húnabyggð, sem skortur hefur verið á undanfarin ár.
Til að finna hagkvæma lausn á nýtingu hauggassins sem safnað er í Stekkjarvík hefur verið stofnað til samstarfs milli Eims, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Norðurár bs. Markmið verkefnisins er að greina hagkvæmni og fýsileika raf- og varmaorkuframleiðslu úr metangasinu með tilliti til efnahags og umhverfis, en ekki síður samfélagslegra þátta nærliggjandi sveitarfélaga. Með heilstæðri nálgun sem þessari má vega samfélagslega hagsmuni til jafns við efnahagslega, sem dregur upp aðra mynd en þegar aðeins efnahagslegir hagsmunir veitufyrirtækja eru látnir ráða för. Niðurstöður verkefnisins munu veita hagsmunaaðilum mikilvægar upplýsingar um möguleika til nýtingar á þessari ónýttu auðlind og varpa ljósi á ávinning og tækifæri fyrir nærsamfélög og umhverfið. Verkefnið getur einnig orðið fyrirmynd fyrir aðra staði á Íslandi þar sem metan frá urðunarstöðum er ekki nýtt.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Ragnhildur Friðriksdóttir á netfangið ragnhildur@eimur.is