Blog Layout

20. mars 2025

Sjálfbær nýting hauggas í Stekkjarvík

Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði nýverið styrkjum til 46 rannsóknarverkefna, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Eimur hlaut þar styrk fyrir verkefnið Sjálfbær nýting hauggass í Stekkjarvík, sem Ragnhildur Friðriksdóttir hjá Eimi leiðir og snýr að því að finna hagkvæma lausn á nýtingu hauggassins sem safnað er í Stekkjarvík. Niðurstöður verkefnisins munu veita hagsmunaaðilum mikilvægar upplýsingar um möguleika til nýtingar á þessari ónýttu auðlind og varpa ljósi á ávinning og tækifæri fyrir nærsamfélög og umhverfið.

Orrkurannsóknasjóður úthlutaði rúmum 72 milljónir til 46 verkefna í ár. Mynd - Landsvirkjun

Hauggas frá urðunarstöðum - Hvað er það og hvernig getum við búið til verðmæti úr gasinu sem nýtist nærsamfélaginu?

Urðunarstaðurinn í Stekkjarvík, norðan við Blönduós, er einn af stærstu urðunarstöðum á landinu. Frá 2011 hefur Stekkjarvík tekið við rúmlega 250 þúsund tonnum af úrgangi frá sveitarfélögum á Norðurlandi, mest blönduðum úrgangi, auk sláturúrgangs. Í rotnandi úrganginum myndast metangas, sem frá árinu 2018 hefur verið safnað saman með sérstöku lagnakerfi og því dælt upp. Um 30-40 rúmmetrar af hauggasi safnast saman á klst í núverandi gassöfnunarkerfi, þar af er 32% metangas. Metanið, sem er allt að 25 sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur, er leitt í sérstaka brennslustöð í Stekkjavík þar sem það er brennt til þess að lágmarka útblástur frá urðunarstaðnum.

Stekkjarvík. Mynd af vef Húnabyggðar

Talsverð vinna hefur verið lögð í umrætt gassöfnunarkerfi í Stekkjarvík en hingað til hefur gasinu verið fargað með brennslu í stað þess að nýta það. Alls voru því um 88 tonn af metangasi brennd árið 2021 og 72 tonn árið 2022. Nýlega var innleitt bann við urðun á lífrænum úrgangi, og er það gert í því skyni að lágmarka umhverfisáhrif frá urðunarstöðum, enda myndast mikið magn gróðurhúsalofttegunda við niðurbrot lífræns úrgangs. Bannið breytir þó ekki þeirri staðreynd að lífrænn úrgangur sem kominn er ofan í jörðu gefur áfram frá sér hauggas. Hauggas kemur því til með að myndast í urðunarhólfinu í Stekkjarvík næstu ár og áratugi, jafnvel þó svo að urðun lífræns úrgangs yrði hætt í dag. Því er ljóst að hér er um að ræða vannýtta auðlind sem mikilvægt er að finna farveg til nýtingar. Dæmi um nýtingarmöguleika gassins er framleiðsla á raforku og varma, sem nýst gæti nærumhverfinu og nærliggjandi byggðarkjörnum. Í því samhengi má m.a. nefna að heitavatnslögn Rarik til Skagastrandar liggur steinsnar frá athafnarsvæðinu og gæti varmi frá bruna metans vel nýst til kyndingar þess vatns sem þar rennur. Slíkt gæti haft jákvæð áhrif á framboð af heitu vatni bæði á Skagaströnd og Húnabyggð, sem skortur hefur verið á undanfarin ár.


Til að finna hagkvæma lausn á nýtingu hauggassins sem safnað er í Stekkjarvík hefur verið stofnað til samstarfs milli Eims, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Norðurár bs. Markmið verkefnisins er að greina hagkvæmni og fýsileika raf- og varmaorkuframleiðslu úr metangasinu með tilliti til efnahags og umhverfis, en ekki síður samfélagslegra þátta nærliggjandi sveitarfélaga. Með heilstæðri nálgun sem þessari má vega samfélagslega hagsmuni til jafns við efnahagslega, sem dregur upp aðra mynd en þegar aðeins efnahagslegir hagsmunir veitufyrirtækja eru látnir ráða för. Niðurstöður verkefnisins munu veita hagsmunaaðilum mikilvægar upplýsingar um möguleika til nýtingar á þessari ónýttu auðlind og varpa ljósi á ávinning og tækifæri fyrir nærsamfélög og umhverfið. Verkefnið getur einnig orðið fyrirmynd fyrir aðra staði á Íslandi þar sem metan frá urðunarstöðum er ekki nýtt.


Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Ragnhildur Friðriksdóttir á netfangið ragnhildur@eimur.is


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 21. mars 2025
Eimur og Vestfjarðastofa bjóða til vefþings, fimmtudaginn 3. apríl næstkomandi, þar sem fjallað verður um áskoranir og tækifæri við orkuskipti smábátaflotans. Hvað þarf til að orkuskipti smábáta verði að veruleika? Hvaða endurnýjanlegu orkugjafar verða í boði til notkunar á sjó? Hvaða reglur um haffærni rafmagnsbáta munu gilda? Sérfræðingar, hagsmunaaðilar og sjómenn munu ræða þessi og önnur mikilvæg mál eins og kostnað, hreinorkuívilnanir og áhrif breytinganna á byggðaþróun og samfélag. Þátttaka er öllum opin en til að fá fundarboð þarf að skrá sig. Smelltu hér til að skrá þig Dagskrá *Birt með fyrirvara um breytingar Hluti I: Tæknilausnir í farvatninu 13:00 – „Stefna stjórnvalda og orkuskipti smábáta“, Jóhann Páll Jóhannsson, Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra. 13:20 – „Rafmagns og tengiltvinnlausnir í smábátum”, Kolbeinn Óttarsson Proppé, stofnandi Grænafls. 13:40 – „Nýsmíði rafmagnsbáta,tækifæri og áskoranir“, Jónas Ingi Pétursson, Þrym. 14:00 – „Takmarkandi þættir þegar kemur að orkuskiptum smábáta”, Tinna Rún Snorradóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláma. Kaffihlé – 10 mín Hluti II: Samfélag og orkuskipti smábáta 14.30 – „Öryggiskröfur rafbáta og leyfismál þeirra“, Ingólfur Örn Þorbjörnsson, sérfræðingur á Samgöngustofu. 14.50 – „Áskoranir fyrir hafnir vegna orkuskipta smábáta“, Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisstjóri Faxaflóahafna. 15:10 – „Orkuskipti smábáta út frá sjónarhóli smábátasjómanna“, Einar Helgason, formaður félags strandveiðisjómann á sunnanverðum Vestfjörðum. 15:30 – „Líklegar/hugsanlegar breytingar á Byggðamynstri samfara orkuskiptum í sjávarútvegi“, Dr. Catherine Chambers, rannsóknarstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. 15:50 - 16:10 - Pallborðsumræður fyrirlesara undir stjórn Ottós Elíassonar, framkvæmdastjóra hjá Eimi.
17. mars 2025
Eimur og PCC BakkiSilicon hlutu nýverið styrk úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar til að kanna hagkvæmni þess að nýta háhita frá iðnaðaferlum PCC BakkiSilicon til gufuframleiðslu. Markmið verkefnisins er að kanna hvernig draga má úr orkukostnaði við gufuframleiðslu fyrir iðnað staðsettan innan Græns Iðngarðs á Bakka og á sama tíma bæta orkunýtingu svæðisins. Rannsóknin mun sýna fram á hvernig bætt nýting auðlinda getur mögulega leitt til orkusparnaðar, lægri rekstrarkostnaðar og á sama tíma sjálfbærari iðnaðaruppbyggingu. Verkefnið hefur bæði beinan fjárhagslegan ávinning og samfélagslega mikilvægi, þar sem það stuðlar að sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og dregur úr umhverfisáhrifum. Verkefni af þessu tagi er verulega gagnlegt til að ýta áfram umræðu um bætta auðlindanýtingu á landsvísu og getur orðið fyrirmynd af slíkum verkefnum framtíðarinnar. Gögn sem munu liggja fyrir að rannsókn lokinni eru: Varmagreining frá PCC: Mælingar á hitastigi og magni varmaorku sem losnar við framleiðsluferla PCC frá háhitastrompunum. Hagkvæmniútreikningar: Samanburður á kostnaði við gufuframleiðslu með háhita við hefðbundna gufuframleiðslu með raforku (og dreifigjaldi raforku innan utan þéttbýlis). Árið 2024 var unnin greining á nýtingu glatvarma frá kælikerfi PCC , sem reyndist mjög jákvæð. Nú verður skoðað hvernig háhiti úr strompunum frá framleiðsluferlum PCC getur nýst til gufuframleiðslu. Verkefnið er samstarfsverkefni PCC BakkiSilicon og Eims. Þá verður verkfræðistofa fengin til að greina varmaflæði og til að meta hagkvæmni og nýtingu glatvarma. Ef verkefnið reynist árangursríkt, getur það orðið fyrirmynd fyrir sjálfbæra iðnaðaruppbyggingu þar sem tækifæri eru í nýtingu háhita. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Karen Mist Kristjánsdóttir á netfangið karen@eimur.is Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði styrkjum til 46 rannsóknarverkefna í ár, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á vefsíðu Landsvirkjunar .
Stefnumótun Eims með stjórn, verkefnastjórn og starfsfólki
13. mars 2025
Í gær, miðvikudaginn 12. mars, kom stjórn Eims, verkefnastjórn og starfsfólk saman á stefnumótunarfundi á Múlabergi, Akureyri. Markmið fundarins var að móta áherslur og markmið félagsins út starfsárið 2026, rýna í núverandi og fyrirhuguð verkefni og styrkja sameiginlega framtíðarsýn. Fundurinn var skipulagður í kringum þrjú meginstef sem einkenna starfsemi Eims og skarast oft á í verkefnum: orkuskipti, lífmassa og glatvarma. Kynningar, hópavinna og umræður fóru fram um hvert þessara sviða, auk þess sem SVÓT-greining Eims var kynnt og rædd í samhengi við áframhaldandi þróun félagsins. Þá var einn liður fundarins tileinkaður aðferðafræði við mótun verkefna, þar sem fjallað var um áherslur, tímaramma, fjármögnun og hlutverk Eims í þróun verkefna og ráðgjöf þeim tengdum . Einnig var tekin gagnleg umræða um árangur og árangursmælikvarða, með það að markmiði að skerpa á mælanlegum viðmiðum og tryggja að starfsemin nái settum markmiðum. Það er alltaf dýrmætt að koma saman, skerpa sameiginlega sýn og eiga uppbyggilegt samtal um framtíðaráherslur og stefnu. Við þökkum stjórn og verkefnastjórn fyrir virkilega gagnlegan vinnudag !
Share by: