Blog Layout

2. október 2023

Grænt í orði og á borði?

Grein í Morgunblaðinu 2. október 2023. 

Karen Mist Kristjánsdóttir og Magnús Ingvi Jósefsson skrifa.

Hugtakið um græna iðngarða (Eco Industrial Parks) grundvallast af markmiðum um hringrásarhagkerfi og lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa frá iðnaðarstarfsemi. Hugtakið hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþróun í sátt við umhverfi og samfélag og er þar beintengt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega markmiði 9 um nýsköpun, iðnað og innviði. Iðnþróunarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNIDO) og Alþjóðabankinn með öðrum stofnunum hafa um skeið unnið að því að skilgreina græna iðngarða og hefur sú vinna leitt til dýpri skilnings á hugtakinu.  Sú vinna kann jafnframt að hafa í för með sér nýjar væntingar þegar kemur að styrkjum, ívilnunum og grænum fjárfestingum í kolefnishlutlausum hagkerfum.

Hvað er grænn iðngarður?
Grænn iðngarður tekur til iðnaðarstarfsemi á landfræðilega hentugum stað sem nýtur innviða, t.d., aðgengis að orku, samgöngu- og samskiptakerfum og öðrum efnistökum og innviðum sem gagnast starfsemi iðngarðsins. Oft er ákveðin kjarnastarfsemi aflgjafi garðsins t.d., í vísi að grænum iðngarði í Þorlákshöfn er kjarnastarfsemin laxeldi en hliðarafurðir verða til í lífrænum efnisstraumum frá þeirri starfsemi sem í bland við aðra lífræna efnisstrauma frá landbúnaði verður nýttur til framleiðslu á áburði og metangasi. Annað dæmi er í grænum iðngarði á Bakka við Húsavík þar sem nú er unnið að hagkvæmnismati á metanólframleiðslu frá útblæstri PCC Bakki Silicon í samvinnu við Landsvirkjun. Þar er einnig fyrirhugað að koma á hitaveitukerfi sem meðal annars er byggt á glatvarma frá starfseminni. Á Reykjanesi er svo enn einn vísir í Auðlindagarði með fyrirhuguðu landeldi, orkuvinnslu og meiru. 

Hvers vegna grænn iðngarður?
Ávinningur af grænum iðngarði getur verið margvíslegur t.d. geta fyrirtæki innan iðngarðsins (og eftir aðstæðum utan hans) haft hag af innviðum garðsins t.d, hvað varðar orku, fráveitu, mengunarvarnir, öryggismál og annað sem lög og reglur kveða á um og varða starfsemi fyrirtækjanna. Iðngarðurinn gæti verið bæði stórkaupandi og jafnvel dreifiveita raforku til fyrirtækja innan garðsins, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Fyrirtæki í námunda við iðngarðinn geta mögulega tengst fráveitukerfi hans með ávinning fyrir umhverfi og samfélag. Einnig gæti verið hagkvæmt að fyrirtæki deili tækjum, þungavinnuvélum og ýmsum verkfærum garðsins þar sem því væri við komið. Iðngarðurinn getur líka verið tækifæri fyrir fyrirtæki sem þjónusta iðngarðinn með ýmsum hætti. Þannig má sjá fyrir sér að grænir iðngarðar geti þróast í klasa grósku og nýsköpunar með tilheyrandi ávinningi fyrir atvinnulíf og samfélag. 

Það er mik­il­vægt að við þróun grænna iðngarða sé fylgt vænt­ing­um og alþjóðleg­um regl­um, stöðlum og vott­un­um um vist­væna fram­leiðslu­ferla.

Grunngildi grænna iðngarða er hringrás og samnýting þeirra efnis og orkustrauma sem flæða milli fyrirtækja innan garðsins og eftir aðstæðum til og frá starfsemi utan hans. Þannig hníga rök að því að hringrás og samnýting skuli ávallt höfð til hliðsjónar við stefnumótun og ákvarðanatöku um þróun græns iðngarðs. Mikilvægið felst ekki síst í því að fjármagn mun í auknum mæli flæða til iðnaðarstarfsemi sem fylgir væntingum, ferlum og eftir atvikum alþjóðlegum reglum, stöðlum og vottunum um hringrás og vistvæna framleiðsluferla. Má nefna græna fjárfestingaráætlun ESB sem dæmi um slíkt. Samstarfsverkefnin Orkidea á Suðurlandi og Eimur á Norðurlandi hafa bæði hlotið stóra rannsóknar- og nýsköpunarstyrki úr sjóðum ESB til þróunar á vistvænum iðnaði í sínum umdæmum. Þannig má gera að því skóna að það sé mikilvægt að iðngarðurinn uppfylli væntingar um hringrás og vistvæna framleiðsluferla ella gæti hann orðið af ívilnunum, alþjóðlegum styrkjum og hagstæðum fjármögnunarmöguleikum.

Hér á landi sjá margir tækifæri í grænum iðngörðum til að styðja við jákvæða þróun í byggðum og að efla samkeppnishæfni og viðnámsþrótt þeirra og þar með landsins alls. Í ágætri skýrslu Íslandsstofu o.fl. um græna iðngarða er vísað í Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna sem lítur á græna iðngarða sem lykilverkfæri til vistvænna umbreytinga í iðnaði og atvinnulífi. Stofnunin hefur þróað handbækur, leiðbeiningar, verkfæri og greiningarlíkön til að styðja við þróun grænna iðngarða allt frá skilgreiningu, stefnumótun og ákvarðanatöku til framkvæmdar. Verkfærin eru aðgengileg á vef stofnunarinnar, þau eru alþjóðleg, ókeypis, auðveld í meðförum og ættu að vera höfð til hliðsjónar við stefnumótun og þróun grænna iðngarða sem sannarlega eru mikilvægur liður á vegferð okkar til vistvænni framtíðar. 

Höfundar eru verkefnastjórar grænna iðngarða hjá samstarfsverkefnunum Orkídeu og Eimi

 


Deila frétt

Fréttabréf RECET verkefnisins er komið úr
11. febrúar 2025
RECET verkefnið hefur gefið út sitt fyrsta árlega fréttabréf, þar sem fjallað er um helstu framfarir í orkuskiptum sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu. Í þessu tölublaði er fjallað um: 🔹 Nýjustu innsýn frá vinnustofum og viðburðum 🔹 Stefnumótun og fjármögnunartækifæri 🔹 Góðar lausnir fyrir sveitarfélög í dreifðum byggðum 🔗 Lesið fréttabréfið á netinu: https://www.recetproject.eu/recetnewsletter 📥 Hlaðið niður PDF útgáfu:
Karen Mist og Ragnhildur hjá Eimi voru í för með fulltrúum frá Landsvirkjun og Bláma.
30. janúar 2025
Verkefnið í Færeyjum sýnir vel hvernig mismunandi geirar matvælaiðnaðar geta unnið saman í úrgangsmálum og verðmætasköpun. Eimur er nú þegar með áþekk verkefni innan lífgasvinnslu til skoðunar á Norðurlandi og opnaði þessi vettvangsferð augu okkar enn frekar fyrir ávinningi slíkrar starfsemi.
30. desember 2024
Viðburðaríkt ár hjá Eimi!
Share by: