Dagana 7.-9. nóvember fór fram alþjóðleg klasaráðstefna hér á landi á Hilton Reykjavík undir yfirskriftinni New Landscapes in the Cluster Development. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðstefnan er haldin hér á landi en í 26. sinn sem hún fer fram. Hátt í 200 manns frá 25 löndum tóku þar þátt.
Eigandi ráðstefnunnar er alþjóðlegu klasasamtökin TCI (The Competitiveness Institute). Ásta Kristín Sigurjónsdóttir hjá Íslenska ferðaklasanum situr í stjórn TCI og leiddi framkvæmd ráðstefnunnar fyrir hönd gestgjafanna en auk Íslenska ferðaklasans eru Orkuklasinn, Sjávarklasinn og Fjártækniklasinn í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið sem koma að henni. Þá komu fjölmargir samstarfsaðilar að verkefninu, þar á meðal Landsvirkjun og samstarfsverkefnin Eimur, Eygló, Blámi og Orkídea.
Fyrsti dagur ráðstefnunnar var helgaður vettvangsferðum og klasaheimsóknum. Eimur tók þátt í ferðinni "Finndu orkuna" , sem hófst með kynningu á skrifstofu Bláa Lónsins í Urriðaholti. Þá var förinni heitið í Ljósafossstöð, sem staðsett er á Sogssvæðinu við Úlfljótsvatn. Dóra Björk Þrándardóttir, nýsköpunarstjóri Landsvirkjunar og Matthildur María Guðmundsdóttir, stöðvarstjóri á Sogssvæði tóku vel á móti gestum með áhugaverðu innleggi um stöðina og sögu hennar. Ferðin endaði svo í Hellisheiðavirkjun þar sem gestirnir fengu innsýn í virkjun og nýtingu jarðvarma á Íslandi.
Á ráðstefnunni fengu samstarfsverkefnin tækifæri að kynna verkefni sín og segja frá þeim árangri sem hafa náðst á síðustu árum. Samstarfsverkefnin beina kröftum sínum að verkefnum sem snúa að loftslagsmálum, hringrásarhagkerfinu, verðmætasköpun, virkjun og betri nýtingu auðlinda og hvetja til hraðari umskiptum yfir í græna orku. Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri hjá Eim undirstrikaði í erindi sínu mikilvægi samvinnu og klasasamstarfs til að ná árangri í í þessum málaflokkum í víðum skilning t.a.m út frá verkefnunum RECET, Grænum Iðngörðum á Bakka og Norðanátt.
Ráðstefnan var bæði fróðleg og skemmtileg og veitti innsýn í starfsemi hjá stórum og smáum klösum sem standa að fjölbreyttum verkefnum um allan heim. Rauði þráðurinn er að virkja samstarf og samvinnu til að koma góðum hugmyndum í verk, hjálpa grasrótinni að blómstra og nýta hugvit og verkþekkingu sem þar er til staðar. Samvinna, traust og tengsl eru mikilvæg til að tryggja framgang verkefna.