10. febrúar 2023

Eimur hlýtur styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar

Eimur hlaut í vikunni styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar fyrir verkefnið: Orkuskipti í haftengdri starfsemi á Norðurlandi eystra. 

Alls bárust að þessu sinni 78 umsóknir um rannsóknarverkefni með samanlögðum óskum um 256 m.kr. til verkefna á árinu 2023 en til ráðstöfunar voru 67 m.kr. 

Samkvæmt markmiðum núverandi ríkisstjórnar Íslands sem getið var í stjórnarsáttmála hennar er stefnt að fullum orkuskiptum og jarðefnalausu Íslandi fyrir árið 2040. Það er ærið verkefni. Orkuskipti í fólksbílaflota landmanna eru þegar á þokkalegu skriði, og fyrstu raftrukkarnir eru væntanlegir til landsins í ár. Orkuskipti í haftengdri starfsemi eru talsvert skemur á veg komin, þó nokkur gróska sé í þeim efnum víða um land, líkt og verkefni sem hlutu styrk úr Orkusjóði á árinu 2022 báru með sér.

Einn þáttur sem huga þarf að í þessu ferli er að átta sig heildstætt á væntanlegri aflþörf við hafnir landsins. Skip og bátar hafa ólíka aflþörf, og það er mikilvægt að skilja hvaða orkugjafar eru líklegir til að henta hverjum notanda. Skammur tími er til stefnu fram til ársins 2040 og því ríður á að byrja strax að setja orkuskipti í samhengi við skipulag hafnarsvæða svo unnt sé að taka betri ákvarðanir tímanlega um innviðauppbyggingu sem styður við ferlið.

Það er sannfæring okkar að hafnarsvæði geti almennt leikið lykilhlutverk í orkuskiptum, líka fyrir farartæki á landi. Víða eru þau hjarta atvinnulífsins, sérílagi á landsbyggðinni. Hafnarsvæði eru orkufrek og munu krefjast öflugra innviða sem mætti með góðri skipulagningu, samnýta t.a.m. fyrir flutningabíla hvers akstur um hafnarsvæði er iðulega mjög þungur vegna atvinnustarfsemi.

Í þessu verkefni stendur til að greina áhrif væntanlegra orkuskipta við allar hafnir á Norðurlandi eystra og meta vænt umfang þeirra. Sambærileg greining hefur þegar verið unnin af Bláma fyrir Ísafjarðardjúp ( https://blami.is/frettir/orkuskipti-i-isafjardardjupi/ ), og verður byggt á þeirri aðferðafræði í þessu verkefni. Þar hefur mikil ánægja verið við afrakstur þess og mikil þörf er á því að koma verkefni sem þessu af stað víðar um land, því sveitarfélögin á landsbyggðinni eru alla jafna ekki farin að huga að þessum málum.

Eimur þakkar fyrir styrkinn og óskar öllum 38 styrkhöfum til hamingju!

 


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 10. apríl 2025
RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu. 
9. apríl 2025
Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun
2. apríl 2025
Um 80 manns tóku þátt í fyrsta fundi í ICEWATER verkefninu, sem haldinn var dagana 24. og 25. mars 2025 í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Fundurinn markaði upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis, sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.