Blog Layout

19. október 2023

Gjöfult sumarsamstarf um bætta nýtingu hliðarafurða í fiskeldi

Eimur tók í sumar þátt gjöfulu samstarfi við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri í tveimur verkefnum um verðmætasköpun í fiskeldi sem Nýsköpunarsjóður námsmanna hjá Rannís styrkti. Alls fengu fimm stúdentar styrk til að sinna þessum verkefnum. Annað verkefnið sneri að nýtingu blóðs úr eldislaxi, og hitt um auðlindamál og fóðrun í tengslum við uppbyggingu nýs styrjueldis í Ólafsfirði.

„Bæði verkefnin voru mikilvægur liður í að styrkja öflugt samstarf við atvinnulíf, með áherslu á aukna verðmætasköpun og bætta nýtingu auðlinda,“ segir Rannveig Björnsdóttir, dósent við Auðlindadeild sem var leiðbeinandi í báðum verkefnum.

Blóðið — verðmæt hliðarafurð
Önnur rannsóknin laut að söfnun og nýtingu á blóði úr eldislaxi og var unnin með HA í samvinnu við Slippinn-DNG, Samherja fiskeldi í Öxarfirði og Matís. Í verkefninu voru framkvæmdar tilraunir með þurrblæðingu laxa og söfnum á blóði eldislaxa við slátrun, með búnaði sem var sérstaklega hannaður og smíðaður fyrir verkefnið. Næringargildi blóðsins voru rannsökuð ásamt því að gæði og geymsluþol flaka var metið með mismunandi aðferðum, því mikilvægt er að gæði fisksins rýrni ekki í ferlinu.

Stúdentar við Auðlindadeild HA, þau Friðbjörg María Björnsdóttir og Kasper Jan S. Róbertsson unnu tvö verkefni tengd rannsókninni og þriðji hluti verkefnisins var unninn af Helenu Þórdísi Svavarsdóttur meistaranema við Háskóla Íslands. Friðbjörg, sem er á þriðja ári í sjávarútvegsfræði kortlagði þurrblæðingu fiska eftir aflífun. Kasper, sem er á þriðja ári í líftækni, rannsakaði efnainnihald laxablóðs með áherslu á helstu næringarefni. Þá voru einnig rannsökuð áhrif þess að bæta and-storknunarefnum í blóðið við söfnun og að kæla það áður en frekari vinnsla fór fram. Hann tók þátt í þurrblæðingu fiska en hans rannsóknir fóru þó að mestu fram á rannsóknastofum HA. Helena Þórdís rannsakaði gæði flaka þurrblædds fisks samanborið við fisk sem blætt var í kældu ísvatni eins og jafnan er gert. Hún vann hluta verkefnisins í nánu samstarfi við Matís.


Blóðgunarrennan sem var smíðuð í tengslum við rannsóknina.

Slippurinn-DNG hannaði og smíðaði blóðgunarrennu sérstaklega fyrir rannsóknina og starfsfólk Silfurstjörnunnar aðstoðaði við framkvæmd tilrauna. Samstarfið reyndist afar gott og er mikilvægt til áframþróunar hvað varðar nýtingu á blóði úr eldislaxi sem í dag er ónýtt hliðarafurð framleiðslu eldisfisks. Í blóðinu má finna næringarefni sem nýta mætti til dæmis sem bætiefni í fóður og jafnvel matvæli.

Eldi á fiski hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og endurspeglar þann vöxt sem hefur átt sér stað um allan heim undanfarna áratugi og hefur lagareldi farið fram úr sjávarútvegi sem helsta framleiðsluaðferð sjávarfangs á heimsvísu. Talið er að um 1000 tonn af blóði falli til árlega á Íslandi og sé enn ekki nýtt og mun það magn halda áfram að aukast ef áfrom landeldisfyrirtækja ná fram að ganga.

Framtíðin í styrjueldi?
Hin rannsóknin snerist um nýtingu vatns við styrjueldi. Ákveðnar tegundir styrju eru í útrýmingarhættu þó svo að þær skili af sér verðmætari afurðum en nokkur önnur fiskitegund. Því er gleðiefni að hafið sé eldi á þessari dýrmætu tegund hér á landi og til mikils að vinna að unnt sé að þróa framleiðsluna með hagkvæmum og sjálfbærum hætti.

Katrín Axelsdóttir og Guðdís Benný Eiríksdóttir, stúdentar í sjávarútvegsfræði nýttu sumarið í að rannsaka í samvinnu við nýstofnað styrjueldi í Ólafsfirði um hvort hægt væri að auka vöxt seiða með auðgun fóðurs og einnig hvernig hámarka mætti nýtingu vatns- og varmaauðlinda á svæðinu við eldið og kom Eimur sérstaklega að þessum þætti.

 
Styrjuseiði að stækka

Niðurstöður benda til þess að hægt sé að auka vöxt seiða með því að auðga fóðrið með íslensku lýsi blandað próteinhrati sem fæst úr þörungum sem framleiddir eru á Íslandi. Þá leiddi skoðun á vatni og varma á svæðinu í ljós að með öflugum varmaskipti væri hægt að nýta affallsvatn frá sundlaugum, fyrirtækjum og íbúðarhúsum til upphitunar á vatni sem hentar eldinu.

Eimur þakkar öllum fyrir gott samstarf í verkefninu og við hlökkum til næstu skrefa. 

Hér má lesa frétt á vefsíðu Háskólans á Akureyri.

 


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 21. mars 2025
Eimur og Vestfjarðastofa bjóða til vefþings, fimmtudaginn 3. apríl næstkomandi, þar sem fjallað verður um áskoranir og tækifæri við orkuskipti smábátaflotans. Hvað þarf til að orkuskipti smábáta verði að veruleika? Hvaða endurnýjanlegu orkugjafar verða í boði til notkunar á sjó? Hvaða reglur um haffærni rafmagnsbáta munu gilda? Sérfræðingar, hagsmunaaðilar og sjómenn munu ræða þessi og önnur mikilvæg mál eins og kostnað, hreinorkuívilnanir og áhrif breytinganna á byggðaþróun og samfélag. Þátttaka er öllum opin en til að fá fundarboð þarf að skrá sig. Smelltu hér til að skrá þig Dagskrá *Birt með fyrirvara um breytingar Hluti I: Tæknilausnir í farvatninu 13:00 – „Stefna stjórnvalda og orkuskipti smábáta“, Jóhann Páll Jóhannsson, Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra. 13:20 – „Rafmagns og tengiltvinnlausnir í smábátum”, Kolbeinn Óttarsson Proppé, stofnandi Grænafls. 13:40 – „Nýsmíði rafmagnsbáta,tækifæri og áskoranir“, Jónas Ingi Pétursson, Þrym. 14:00 – „Takmarkandi þættir þegar kemur að orkuskiptum smábáta”, Tinna Rún Snorradóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláma. Kaffihlé – 10 mín Hluti II: Samfélag og orkuskipti smábáta 14.30 – „Öryggiskröfur rafbáta og leyfismál þeirra“, Ingólfur Örn Þorbjörnsson, sérfræðingur á Samgöngustofu. 14.50 – „Áskoranir fyrir hafnir vegna orkuskipta smábáta“, Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisstjóri Faxaflóahafna. 15:10 – „Orkuskipti smábáta út frá sjónarhóli smábátasjómanna“, Einar Helgason, formaður félags strandveiðisjómann á sunnanverðum Vestfjörðum. 15:30 – „Líklegar/hugsanlegar breytingar á Byggðamynstri samfara orkuskiptum í sjávarútvegi“, Dr. Catherine Chambers, rannsóknarstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. 15:50 - 16:10 - Pallborðsumræður fyrirlesara undir stjórn Ottós Elíassonar, framkvæmdastjóra hjá Eimi.
Eimur hlaut nýverið styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar
20. mars 2025
Hauggas frá urðunarstöðum? Hvað er það og hvernig getum við búið til einhver verðmæti úr gasinu sem nýtist nærsamfélaginu?
17. mars 2025
Eimur og PCC BakkiSilicon hlutu nýverið styrk úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar til að kanna hagkvæmni þess að nýta háhita frá iðnaðaferlum PCC BakkiSilicon til gufuframleiðslu. Markmið verkefnisins er að kanna hvernig draga má úr orkukostnaði við gufuframleiðslu fyrir iðnað staðsettan innan Græns Iðngarðs á Bakka og á sama tíma bæta orkunýtingu svæðisins. Rannsóknin mun sýna fram á hvernig bætt nýting auðlinda getur mögulega leitt til orkusparnaðar, lægri rekstrarkostnaðar og á sama tíma sjálfbærari iðnaðaruppbyggingu. Verkefnið hefur bæði beinan fjárhagslegan ávinning og samfélagslega mikilvægi, þar sem það stuðlar að sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og dregur úr umhverfisáhrifum. Verkefni af þessu tagi er verulega gagnlegt til að ýta áfram umræðu um bætta auðlindanýtingu á landsvísu og getur orðið fyrirmynd af slíkum verkefnum framtíðarinnar. Gögn sem munu liggja fyrir að rannsókn lokinni eru: Varmagreining frá PCC: Mælingar á hitastigi og magni varmaorku sem losnar við framleiðsluferla PCC frá háhitastrompunum. Hagkvæmniútreikningar: Samanburður á kostnaði við gufuframleiðslu með háhita við hefðbundna gufuframleiðslu með raforku (og dreifigjaldi raforku innan utan þéttbýlis). Árið 2024 var unnin greining á nýtingu glatvarma frá kælikerfi PCC , sem reyndist mjög jákvæð. Nú verður skoðað hvernig háhiti úr strompunum frá framleiðsluferlum PCC getur nýst til gufuframleiðslu. Verkefnið er samstarfsverkefni PCC BakkiSilicon og Eims. Þá verður verkfræðistofa fengin til að greina varmaflæði og til að meta hagkvæmni og nýtingu glatvarma. Ef verkefnið reynist árangursríkt, getur það orðið fyrirmynd fyrir sjálfbæra iðnaðaruppbyggingu þar sem tækifæri eru í nýtingu háhita. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Karen Mist Kristjánsdóttir á netfangið karen@eimur.is Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði styrkjum til 46 rannsóknarverkefna í ár, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á vefsíðu Landsvirkjunar .
Share by: