Verkefnið Glatvarmi á Bakka fékk nýverið úthlutaðan styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra.
Glatvarmi á Bakka er samstarfsverkefni Eims, PCC BakkiSilicon og Orkuveitu Húsavíkur. Markmið verkefnisins er að svara því hvort hagkvæmt sé að nýta glatvarma frá verksmiðju PCC BakkiSilicon á Bakka við Húsavík, ýmist í aðra iðnaðarstarfsemi eða fyrir hitaveitu á svæðinu.
Í verkefninu felst söfnun og greining gagna sem nauðsynleg eru fyrir hagkvæmnigreiningu á föngun glatvarma sem myndast í kælikerfi PCC Silicon á Bakka fyrir utan Húsavík. Markmiðið er að sjá hvort það sé hagkvæmt að nýta varmann í uppbyggingu hitaveitu á Bakka þar sem uppbygging Græns Iðngarðs mun eiga sér stað á næstu árum og sú leið borin saman við kostnað á hefðbundinni framlengingu dreifikerfis Orkuveitu Húsavíkur frá Húsavík og að Bakka.
Alls bárust 123 umsóknir í Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra í ár. Þar af voru 70 menningarverkefni, 43 atvinnu- og nýsköpunarverkefni og 10 stofn- og rekstrarstyrkir. Veittir voru 76 styrkir að heildarupphæð 73.592.200 kr., ef af þeim voru 44 fyrir menningarverkefni, 23 fyrir atvinnu- og nýsköpunarverkefni og 9 stofn- og rekstrarstyrkir.
Úthlutunin úr Sóknaráætlun er fjármögnuð af menningar- og viðskiptaráðuneytinu, innviðaráðuneytinu og sveitarfélögum Norðurlands eystra.