Föstudaginn 24. mars sl. fór fram raforkuráðstefna lagadeildar Háskólans á Akureyri undir yfirskriftinni Orkuskipti til framtíðar. Sesselja Barðdal, framkvæmdastjóri Eims fór þar með framsögu um Orkuskipti og nýsköpun.
Þetta er í annað sinn sem deildin stendur fyrir raforkuráðstefnu og hafa viðtökur verið mjög góðar og áhugi mikill. Stendur til að Lagadeild geri þetta að reglubundnum viðburði og kalli til sín sérfræðinga að borðinu. Sjö fyrirlesarar fóru með fróðlegar og fjölbreyttar framsögur á ráðstefnunni að þessi sinni. Ráðstefnustjóri var Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður og stjórnaði hann jafnframt pallborðsumræðum.
Vilhjálmur Egsson, fyrrverandi rektor háskólans á Bifröst og formaður starfshóps um gerð skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum, reið fyrstur á vaðið og flutt i erindið Orka - lykill að nettó núlli. Fjallaði hann um áskoranir í málum tengdum orkuskiptum á heimsvísu, verkefnin hér heima fyrir og hvað er hægt að gera hjá okkur.
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri fór með framsögu um Orkuskiptin - stóra myndin og stjórnsýslan og ræddi almennt um verkefni Orkumálastofnunar og gerði grein fyrir yfirstandandi verkefnum og einstökum orkuskiptum, einkum í samgöngum. Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, flutti erindið Græn orka til framtíðar og fjallaði um framtíðarsýn Landsvirkjunar sem væri sjálfbær heimur knúinn endurnýjanlegri orku. Hún kom einnig inn á ferlið eftir rammaáætlun og leyfisveitingar vegna virkjana. Þá fór Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku yfir sjónarmið Norðurorku undir yfirskriftinni Orkuskipti - sjónarmið dreifiveitna . Fjallaði hann þar m.a. um áskornir vegna hitaveitu og verkefnum tengd orkuskiptum og þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað á innviðum til að orkuskipti geti gengið greiðlega fyrir sig.
Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims fór með framsögu um Orkuskipti og Nýsköpun og talaði meðal annars um breytt hugarfar sem þyrftir að fylgja orkuskiptum og aukinni samvinnu. Þá sagði hún frá því hvað er að gerast hjá Norðanáttinni , þeirri vinnu sem komin er af stað í verkefninu um Græna iðngarða á Bakka og sókn Eims í Evrópustyrkjum.
Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við Lagadeild HÍ, hélt erindið Vatnatilskipunin, rammaáætlun og almannahagsmunir og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lektor og doktorsnemi ræddi um þróunina á vettvangi ESB og kom inn á orku- og loftslagsmál sambandsins, þar á meðal reglur um losunarheimildir í flugi undir yfirskriftinni ESB og orkuskipti; hvert stefnir?