Verkefnastjórum Eims og Orkídeu var boðið að heimsækja græna iðngarða á Jótlandi í apríl síðastliðnum. Með í för var fulltrúi Landsvirkjunnar en Landsvirkjun er einn helsti bakhjarl félaganna.
Teymið heimsótti fjóra iðngarða og ljóst að Danir hafa náð umtalsverðum árangri í því að þróa græna iðngarða.
Hvað er grænn iðngarður?
Iðngarðarnir sem teymið heimsótti eru allir eru mjög ólíkir og byggðir upp á mismunandi hátt. Þeir eiga það þó allir það sameinginlegt að í þeim felst viðskiptasamstarf milli fyrirtækja á svæðinu þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi. Fyrirtækin taka öll virkan þátt í að deila straumum sín á milli, sem hefðu annars farið í ruslið.
"Heimsóknin var virkilega áhugaverð. Við höfum skapað góð tengsl við bæði þá aðila sem sjá um að stýra starfseminni á svæðunum og
fyrirtækjum innan garðanna. Þessi tengls munu án efa geta nýst okkur mikið í þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað á Bakka. Við getum nýtt okkur margra ára reynslu til þess að styðja sem best við fyrirtækin á svæðinu ásamt því að búa til aðdráttarafl fyrir fyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásahagkerfisins. Við ætlum okkur að skapa störf og skila alvöru árangri í umhverfismálum, en þar þurfum við að gera mun betur og við gerum það best saman!” segir Karen Mist Kristjánsdóttir verkefnastjóri Græns iðngarðs á Bakka.
Frá því að verkefnastjóri tók til starfa hefur áhersla verið lögð á að kortleggja auðlindastrauma svæðisins ásamt því að heimsækja þau fyrirtæki sem nú þegar starfa á svæðinu. Stofnaður hefur verið stýrihópur fyrir verkefnið sem er skipaður af fulltrúum frá öllum samstarfsaðilum verkefnisins ásamt verkefnastjóra. Einnig er verið að vinna að heimasíðu fyrir Grænan Iðngarð á Bakka til að kynna möguleika svæðisins.