Blog Layout

2. apríl 2024

Vinnustofa um heildstæð orkuskipti á Samsø - RECET

Sem hluta af RECET verkefninu, bauð Eimur og samstarfsaðilar í fræðsluferð um orkuskipti í mars síðastliðnum.

RECET verkefnið er samstarfsverkefni styrkt af Evrópusambandinu og er til næstu þriggja ára. Verkefnið snýst um að styðja sveitarfélögin á Norðurlandi eystra í því að smíða orkuskiptaáætlanir. Sem liður í því verkefni fór Eimur, Vestfjarðarstofa og Íslensk Nýorka til Samsø í Danmörku til að fræðast um heildstæð orkuskipti í litlum samfélögum.

Samsø er 3800 manna eyja rétt norðan við Stóra beltið í Danmörku. Eyjan hóf sína orkuskiptavegferð árið 1997 og árið 2007 varð eyjan sjálfbær í umhverfisvænni raforkuframleiðslu og húshitun. Verkefnið er sérstakt að því leytinu að það var unnið í samvinnu og sátt við íbúa eyjunnar og voru lausnirnar m.a. sérsniðnar að vindorku og þeim breytileika í framleiðslu sem fylgir vindorkunni.

Það var frábær þátttaka og frá Norðurlandi eystra komu fulltrúar frá Akureyrarbæ, Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Langanesbyggð og Hafnarsamlagi Norðurlands. Frá Vestfjörðum komu fulltrúar frá Ísafjarðarbæ, Vesturbyggð, Reykhólahreppi og Bolungarvíkurbæ.

Á Samsø fengu þátttakendur skoðunarferð um eyjuna undir leiðsögn Samsø Energy Academy þar sem snjallar lausnir í orkuskiptum voru kynntar, t.d. í vindorkuframleiðslu, húshitun með afgangs lífmassa, hleðslulausnir við hafnir og hvernig hringrásarhagkerfi var haft að leiðarljósi við úrlausn orkuskiptanna.

Í kjölfar skoðunarferðarinnar var haldin vinnustofa þar sem þátttakendur spreyttu sig á brennandi spurningum sem þau komu með úr heimabyggð undir leiðsögn frá Samsø Energy Academy.

Um þessar mundir eru orkuskiptin á allra vörum og ljóst að það er mikill áhugi á verkefnum sem stuðla að orkuskiptunum. Næstu þrjú árin mun RECET verkefnið mun styðja við þá vegferð.


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 21. mars 2025
Eimur og Vestfjarðastofa bjóða til vefþings, fimmtudaginn 3. apríl næstkomandi, þar sem fjallað verður um áskoranir og tækifæri við orkuskipti smábátaflotans. Hvað þarf til að orkuskipti smábáta verði að veruleika? Hvaða endurnýjanlegu orkugjafar verða í boði til notkunar á sjó? Hvaða reglur um haffærni rafmagnsbáta munu gilda? Sérfræðingar, hagsmunaaðilar og sjómenn munu ræða þessi og önnur mikilvæg mál eins og kostnað, hreinorkuívilnanir og áhrif breytinganna á byggðaþróun og samfélag. Þátttaka er öllum opin en til að fá fundarboð þarf að skrá sig. Smelltu hér til að skrá þig Dagskrá *Birt með fyrirvara um breytingar Hluti I: Tæknilausnir í farvatninu 13:00 – „Stefna stjórnvalda og orkuskipti smábáta“, Jóhann Páll Jóhannsson, Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra. 13:20 – „Rafmagns og tengiltvinnlausnir í smábátum”, Kolbeinn Óttarsson Proppé, stofnandi Grænafls. 13:40 – „Nýsmíði rafmagnsbáta,tækifæri og áskoranir“, Jónas Ingi Pétursson, Þrym. 14:00 – „Takmarkandi þættir þegar kemur að orkuskiptum smábáta”, Tinna Rún Snorradóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláma. Kaffihlé – 10 mín Hluti II: Samfélag og orkuskipti smábáta 14.30 – „Öryggiskröfur rafbáta og leyfismál þeirra“, Ingólfur Örn Þorbjörnsson, sérfræðingur á Samgöngustofu. 14.50 – „Áskoranir fyrir hafnir vegna orkuskipta smábáta“, Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisstjóri Faxaflóahafna. 15:10 – „Orkuskipti smábáta út frá sjónarhóli smábátasjómanna“, Einar Helgason, formaður félags strandveiðisjómann á sunnanverðum Vestfjörðum. 15:30 – „Líklegar/hugsanlegar breytingar á Byggðamynstri samfara orkuskiptum í sjávarútvegi“, Dr. Catherine Chambers, rannsóknarstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. 15:50 - 16:10 - Pallborðsumræður fyrirlesara undir stjórn Ottós Elíassonar, framkvæmdastjóra hjá Eimi.
Eimur hlaut nýverið styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar
20. mars 2025
Hauggas frá urðunarstöðum? Hvað er það og hvernig getum við búið til einhver verðmæti úr gasinu sem nýtist nærsamfélaginu?
17. mars 2025
Eimur og PCC BakkiSilicon hlutu nýverið styrk úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar til að kanna hagkvæmni þess að nýta háhita frá iðnaðaferlum PCC BakkiSilicon til gufuframleiðslu. Markmið verkefnisins er að kanna hvernig draga má úr orkukostnaði við gufuframleiðslu fyrir iðnað staðsettan innan Græns Iðngarðs á Bakka og á sama tíma bæta orkunýtingu svæðisins. Rannsóknin mun sýna fram á hvernig bætt nýting auðlinda getur mögulega leitt til orkusparnaðar, lægri rekstrarkostnaðar og á sama tíma sjálfbærari iðnaðaruppbyggingu. Verkefnið hefur bæði beinan fjárhagslegan ávinning og samfélagslega mikilvægi, þar sem það stuðlar að sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og dregur úr umhverfisáhrifum. Verkefni af þessu tagi er verulega gagnlegt til að ýta áfram umræðu um bætta auðlindanýtingu á landsvísu og getur orðið fyrirmynd af slíkum verkefnum framtíðarinnar. Gögn sem munu liggja fyrir að rannsókn lokinni eru: Varmagreining frá PCC: Mælingar á hitastigi og magni varmaorku sem losnar við framleiðsluferla PCC frá háhitastrompunum. Hagkvæmniútreikningar: Samanburður á kostnaði við gufuframleiðslu með háhita við hefðbundna gufuframleiðslu með raforku (og dreifigjaldi raforku innan utan þéttbýlis). Árið 2024 var unnin greining á nýtingu glatvarma frá kælikerfi PCC , sem reyndist mjög jákvæð. Nú verður skoðað hvernig háhiti úr strompunum frá framleiðsluferlum PCC getur nýst til gufuframleiðslu. Verkefnið er samstarfsverkefni PCC BakkiSilicon og Eims. Þá verður verkfræðistofa fengin til að greina varmaflæði og til að meta hagkvæmni og nýtingu glatvarma. Ef verkefnið reynist árangursríkt, getur það orðið fyrirmynd fyrir sjálfbæra iðnaðaruppbyggingu þar sem tækifæri eru í nýtingu háhita. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Karen Mist Kristjánsdóttir á netfangið karen@eimur.is Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði styrkjum til 46 rannsóknarverkefna í ár, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á vefsíðu Landsvirkjunar .
Share by: