Blog Layout

28. ágúst 2024

Eimur vex í vestur

Aukin tækifæri til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar

Bakhjarlar Eims, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Samtök sveitarfélaga- og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur, ásamt Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra undirrituðu í dag samkomulag um inngöngu samtakana í Eim. Eimur hefur það meginmarkmið að bæta nýtingu auðlinda með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Nú spannar starfsvæði félagsins allt Norðurland.


Með aðild SSNV nær starfssvæði Eims yfir allt Norðurland. Mikil tækifæri eru fólgin í vexti Eims til vesturs. Landshlutinn er mikil matarkista, með framleiðslu á landbúnaðarvörum og öflugri útgerð. Þá er starfsemi Landsvirkjunar umtalsverð á svæðinu og útlit er fyrir aukna orkuvinnslu á Blöndusvæði í náinni framtíð.


Félagið Eimur var stofnað árið 2016 og hefur sinnt verkefnum sem snúa að fjölnýtingu jarðvarma, stuðningi við nýsköpun, orkuskiptum og innleiðingu hringrásarhagkerfis t.a.m. í iðnaði. Í dag starfa fimm hjá Eimi, og með stækkuninni verða ráðnir tveir nýir starfsmenn með skrifstofu á Norðurlandi vestra. Eimur var fyrirmyndin að stofnun sambærilegra verkefna, Orkídeu á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og Eygló á Austurlandi.


Eimur miðar að því að leiða saman fólk og fyrirtæki til samstarfs um tilraunir, rannsóknir og þróunarverkefni á sviði orku-, auðlinda-, og loftslagsmála, meðal annars gegnum alþjóðleg samstarfsverkefni. Þetta er besta leiðin til þess að flytja inn þekkingu á því hvernig aðrar þjóðir takast á við áskoranir samtímans, og sú þekking er svo nýtt til að gera slíkt hið sama hér innanlands.


 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:

„Það er mikið gleðiefni að undirrita stækkun á samstarfssvæði Eims yfir á Norðurland-vestra í dag. Við höfum lagt á það áherslu undanfarin tvö ár að styrkja og styðja við nýsköpunarstarfsemi um land allt. Samvinna ráðuneytisins við landshlutasamtökin og Landsvirkjun í svæðisbundnum samstarfsverkefnum um nýsköpun hefur skilað margfalt meira fjármagni inn á svæðin heldur en við höfum sett inn. Það skiptir máli að nýta hugvit og sköpunarkraft heima í héraði.“



Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Eimur hefur sýnt það í verki á undanförnum árum að góð og vel skilgreind samvinna getur verið lykill að árangri í loftslagsmálum. Með stækkun starfsemi Eims yfir á Norðurland vestra verða til fleiri og fjölbreyttari tækifæri til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar á landsvæðinu. Það er öllum í hag að nýta auðlindir okkar betur, hvort sem þær tengjast orkuvinnslu eða hliðarstraumum iðnaðar og landbúnaðar. Það er mikill fengur að fá SSNV inn í verkefnið, enda eru tækifærin í landshlutanum fjölbreytt og spennandi. Við hlökkum til samstarfsins.“



Katrín M Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV:


„Við erum að stíga mikilvægt skref. Nýsköpun er grundvöllur efnahagslegrar velgengni í nútíma samfélagi. Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar og hér á Norðurlandi vestra höfum við aðgengi að fjölbreyttum auðlindum sem hægt er að nýta til aukinnar verðmætasköpunar. Með tilkomu Eims inn á svæðið getum við virkjað þau fjölmörgu tækifæri sem hér leynast á markvissari hátt en áður“.


Eimur fagnar þessu samkomulagi og auknu samstarfi yfir Tröllaskagann enda mikill kraftur sem býr á Norðurlandinu í heild. 



Deila frétt

Fréttabréf RECET verkefnisins er komið úr
11. febrúar 2025
RECET verkefnið hefur gefið út sitt fyrsta árlega fréttabréf, þar sem fjallað er um helstu framfarir í orkuskiptum sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu. Í þessu tölublaði er fjallað um: 🔹 Nýjustu innsýn frá vinnustofum og viðburðum 🔹 Stefnumótun og fjármögnunartækifæri 🔹 Góðar lausnir fyrir sveitarfélög í dreifðum byggðum 🔗 Lesið fréttabréfið á netinu: https://www.recetproject.eu/recetnewsletter 📥 Hlaðið niður PDF útgáfu:
Karen Mist og Ragnhildur hjá Eimi voru í för með fulltrúum frá Landsvirkjun og Bláma.
30. janúar 2025
Verkefnið í Færeyjum sýnir vel hvernig mismunandi geirar matvælaiðnaðar geta unnið saman í úrgangsmálum og verðmætasköpun. Eimur er nú þegar með áþekk verkefni innan lífgasvinnslu til skoðunar á Norðurlandi og opnaði þessi vettvangsferð augu okkar enn frekar fyrir ávinningi slíkrar starfsemi.
30. desember 2024
Viðburðaríkt ár hjá Eimi!
Share by: