Nú er komin út skýrsla unnin undir hatti verkefnisins hjá Eimi, í samstarfi við þau Ágústu Steinunni Loftsdóttur og Sindra Dag Sindrason hjá Eflu verkfræðistofu, en Ágústa situr einmitt í ráðgjafaráði RECET.
Í skýrslunni er byggt á gagnasafni Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara sem starfræktur var fram til ársins 2020. Hér er olíusala áranna 2010-2020 greind eftir landshlutum og sveitarfélögum og þá er notkunin flokkuð eftir gerðum eldsneytis. Þannig er gerð grein fyrir notkun sem fella má undir sam göngur á landi, skip og báta og svo aðra notkun sem að mestu er tilkomin vegna eldsneytisnotkunar í minni iðnaði og landbúnaði.
Í orkuskiptum er olíu og öðru jarðefnaeldsneyti skipt út fyrir aðra vistvæna orkugjafa. Besti mælikvarðinn á framgang orkuskipta er magn olíu sem brennt er á hverjum tíma. Við full orkuskipti verður engri olíu brennt. Engin opinber gögn eru til um olíunotkun á Íslandi eftir landshlutum eða sveitarfélögum og þeim gögnum sem áður var safnað er ekki lengur safnað.
Meginniðurstaða skýrslunnar er að talsverður breytileiki er í olíunotkun samgangna, haftengdrar starfsemi og iðnaðar eftir bæði landshlutum og sveitarfélögum, þar sem olíunotkun er almennt meiri utan höfuðborgarsvæðisins heldur en innan þess. Aðgerðir stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum til að styðja við orkuskipti í landinu og skuldbindingar Íslands í þeim efnum, verða að taka þennan breytileika með í myndina til þess að tryggja að öll ákvarðanataka innan málaflokksins komi jafnt við alla íbúa landsins, óháð búsetu.
Þessi greining gefur nýja vídd í umfjöllun um orkuskipti á Íslandi og setur þau í svæðisbundið samhengi, því ekki hafa áður legið fyrir opinberlega upplýsingar um olíusölu og notkun og þar með stöðu orkuskipta innan einstakra landshluta eða sveitarfélaga. Það er okkar trú að þessar upplýsingar verði til að dýpka umræðuna um orkuskipti og varpi betra ljósi á ólíka stöðu sveitarfélaga á Íslandi í þeim efnum.
Verkefnið er styrkt af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins gegnum verkefnið RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition), sem Eimur tekur þátt í.
Smelltu hér til að lesa skýrsluna